sunnudagur, nóvember 19, 2006

Grár hversleikinn

Stundum getur grái hversdagsleikinn verið ótrúlega ljúfur. Áðan fór ég til dæmis að versla í matinn fyrir matarboðið mitt í kvöld, og í búðinni sá ég strák sem var sýndist mér að gera það sama. Ótrúlega venjulegan strák, í venjulegum fötum að kaupa venjulegan mat, nema hann var með rauðan varalit. Mér fannst það æðislegt. Á leiðinni heim rakst ég á hljómsveit sem var að spila úti á götu og fullt af fólki hafði safnast í kring. Hljómsveitarmeðlimir voru frekar margir, sennilega um 20 manns, og voru bara að spila á hitt og þetta, allir að syngja með og vera glaðir, þetta var ótrúlega flott hjá þeim og spilagleðin var mjög smitandi. Þau minntu mig pínulítið á Polyphonic Spree þegar þau spiluðu Light & Day í Scrubs. Þegar mér tókst svo að slíta mig frá þeim og tölta heim sá ég að það var verið að reisa jólatré beint fyrir utan gluggann minn. Ekki skrýtið að súpan sem Ella frænka sendi mér uppskrift af hafi verið svona góð, ég var svo kát þegar ég gerði hana. Ég vona að hversdagurinn ykkar sé líka svona glansandi fínn.

Engin ummæli: