Í gærkvöldi fékk ég grun minn staðfestan. Súrkál er viðbjóður, sérstaklega þegar það er borið fram með einhverju sem líktist helst grófum hrossabjúgum, og undarlega fölum pylsuskrípum:
Ég kláraði nú samt af disknum mínum, og er mjög stolt af sjálfri mér fyrir það afrek. Mig langar sérstaklega að þakka stóóóra rauðvínsglasinu mínu fyrir hjálpina. Ég reyndi að taka myndir af matargestunum en þeir voru frekar óþægir. Mathilde þóttist ekki vita að það væri verið að taka mynd (þó ég væri búin að góla "brosa" á öllum tungumálum sem ég kann, og biðja hana um að segja bæði "sís" og "kíví"), Vincent var sá eini sem stóð sig eins og hetja og brosti sínu blíðasta, og Clémence litla systir Mathilde fékkst ekki til að snúa rétt: Þegar ég reyndi að taka mynd af hinum helming hópsins hljóp hin Mathilde fram á gang, Melanie reyndi að hylja á sér andlitið með tissjúi (en ég var of fljót að smella af, hah!) og Antoine gerði eitthvað mjög ógnvekjandi við andlitið á sér sem ég get ekki með góðri samvisku kallað bros:
En ég reyndi allavega, og það er það sem skiptir máli. Bara að vera með.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli