föstudagur, júlí 29, 2005

Útá land! Ég er hetja!

Nú er komið að því að standa við stóru orðin. Ætla út á land. Alla leið til Víkur í Mýrdal á landsmót barna og unglinga. Veit ekki í hverju þau keppa helst, alltaf bara talað um "landsmótið", en ætli það sé ekki veggjakrot og svoleiðis níðingsháttur. Þetta eru jú unglingar. Við vitum öll hvað þeir eru villtir og spilltir. Og hættulegir. Ja ég tek allavega piparspreyið með mér. Verst að ég þarf að keyra ein fram og tilbaka og fyrir utan að finnast leiðinlegt að keyra þá er ekki einu sinni útvarp í bílnum og smá séns að ég verði búin að missa glóruna þegar ég loksins kemst á leiðarenda. Kann ekki nógu mörg lög til að endast þrjá tíma á söngli. Verð bara að leika mínar eigin veðurfréttir og umferðarfréttir og svona milli laga. Og morgunleikfimi eins og á Rás 1, best að æfa sig til að vera við öllu búinn ef svo ólíklega fer að Dabbi fær djobbið. Gæti líka tekið upp puttalinga, þeir ættu að geta skemmt mér allavega nokkra kílómetra, og þeir eru svo æðislega réttlausir að þeim má henda út um leið og þeir glata skemmtanagildi sínu. Tók einmitt upp tvo unglinga um daginn, bæði til að komast yfir hræðslu mína við unglinga (stara í augun á óttanum) og svo voru þeir svo skemmtilega bólóttir og vandræðalegir að ég stóðst þá ekki. Enda voru þeir ofsa efnilegir. Á unglingakvarðanum. Sem þýðir að þeir stálu engu, krotuðu ekki inní bílinn, nöguðu ekki áklæðið og hræktu ekki á gólfið. Fínir strákar.

Engin ummæli: