miðvikudagur, júlí 27, 2005

O ó...

Nett kvíðakast í morgunsárið. Samkvæmt mínum útreikningum er ég búin að vera að eyða tímanum í eitthvað allt annað en að:

a) skrifa ritgerðina mína (sem ég var að ákveða fyrir núlleinni að ætti að vera um hversu vel skrifræðislíkan Max Webers henti nútíma skipulagsheildum. Spennandi.)
b) vera kreatív og skapandi (þ.e. skrifa eitthvað mér og öðrum til skemmtunar og hamingjuauka. Því ekki er bloggskrípið að gera sig. Það bara neitar að deyja.)
c) panta dótarí af netinu viðkomandi eróbikktímunum mínum, til að gera mig að betri kennara og tímana mannúðlegri (t.d. galdraprik og töfraduft. Og kannski skárri tónlist.)
d) ferðast innanlands (fjallageitarkomplexinn alveg gleymdur)

Samkvæmt umræddum útreikningum er ég búin að eyða því sem af er sumars í:

a) óhóflega vinnu
b) að leggja sjálfa mig í klórbleyti (mér til ánægju og yndisauka, ekki af því það væru á mér blettir, svo gagnsemin er takmörkuð)
c) hjúkra sjúku kattaskotti (tíma vel varið og sé ekki eftir mínútu af því)
d) vera á msn (get ekki á nokkurn hátt réttlætt það svona yfir hásumarið, ætti kannski að reyna að finna 12 spora prógramm)

En það þýðir ekki að gráta það, heldur reyna að nýta þennan mánuð sem eftir er sumars (!) til uppbyggilegri hluta eins og:

a) að borða barnaís í brauði (hvað er uppbyggilegra en það?)
b) skrifa bévítans ritgerðina (foj)
c) fara til Víkur að heimsækja Áslu og kjörfjölskylduna mína (og auðvitað öll börnin sem ætla að safnast þar saman því þau kunna að hlaupa hratt og hoppa hátt/langt)
d) panta eróbikkdiska á netinu sem eru ekki með lögum með Backstreet Boys eða Whitney Houston (ef þeir eru þá til...)
e) fara í allavega eina almennilega göngu (bara eitthvert, ofsa margir hringir á Laugardalsvellinum duga ef í harðbakkann slær)

Alltaf gaman að skipta blogginu sínu í liði.

Engin ummæli: