Mætti í vinnuna í gær klukkan 6 og það er betri vinnutími en ég áttaði mig á, maður er bara búinn að vinna fullan 8 tíma vinnudag klukkan 14 og þá er allur dagurinn eftir :) Vei!
Ég er komin í svo svakalegt sumarskap að það ætti að vera bannað á þessum árstíma, svo var verið að bjóða mér gistingu í viku í júní í húsi í Torrevieja og vonin um viku á Spáni gerði ekkert nema auka á árstíðavilluna mína. Ætti maður að skella sér með? Flugið kostar 30 þús fram og til baka, sem er nú ekkert voðalegt. Hmm... El verano ya llegó, ya llegó, ya llegó... :)
fimmtudagur, mars 25, 2004
sunnudagur, mars 21, 2004
Ég sá Evróvisjón lagið okkar þetta árið frumflutt í gær (já, ég horfði á Gísla Martein, en það var óvart!) og ég var pínulítið vonsvikin. Ég var búin að sjá Jónsa svartklædda fyrir mér í svakalegu stuði að heilla alla Evróvisjón hommana uppúr skónum, en hann fær bara að syngja einhverja ógó væmna ballöðuklisju, með versta texta sem ég hef nokkurn tímann heyrt (ég hef Birgittu Haukdal sterklega grunaða um að vera höfundur hans). Hann er auðvitað á ensku en svo greinilega saminn af manneskju sem á ekki ensku sem móðurmál og Jónsi er það af leiðandi allan tímann æðislega "blue" og that´s about it bara. Minnir svolítið á týnda erindið úr hinu klassíska leikskólalagi "allt sem er rautt, rautt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn litla indíánann"...
Þá er maður enn á ný í blessaðri baðstofunni að bora í nefið. Þema þessarar helgar held ég að sé samt át, mér var boðið í æðislegan mat bæði föstudag og laugardag og er að fara í enn eina fóðrunina á eftir. Sem er ekki alveg í stíl við fegrunina sem á að vera í gangi en einhverra hluta vegna er fólk að finna hjá sér þörf til að útvega mér næringu þessa dagana, og ekki kvarta ég! Á föstudaginn fór ég líka í ljós í boði Lilju (í fyrsta skipti síðan um fermingu held ég... eða svo gott sem) og brann á óæðri endanum fyrir vikið. Get nú ekki sagt að það hafi verið neitt sérstaklega gott fyrir kúlið en samt mjög dæmigert fyrir Unnsu :) (Mér líður betur í botninum núna ef þið voruð áhyggjufull...). Á eftir dró Guðrún Víkurmær mig í teiti hjá Jóni Erni sem var mjög ánægjulegt og þakka ég hérmeð fyrir mig. Þar var ríkulega veitt af mati og drykk en þegar í bæinn var komið gufaði gestgjafinn hinsvegar upp á afskaplega dularfullan hátt. Hmm... Við Guðrún gerðum samt okkar besta til að mála bæinn rauðan en fundum einhvern veginn bara engan stað sem var að spila almennilega tónlist nema Nelly´s, sem var að spila frábæra ´85 hallærispésatónlist. Þar hefðum við örugglega getað misst okkur í tvistinu mjög lengi ef ekki hefði verið fyrir alla veiklulegu gaukana sem rifu sig úr að ofan og fóru að nudda sér utan í okkur. Þá röltum við nú bara heim á leið enda of sómakærar stúlkur og vandar að virðingu okkar til að láta hafa okkur útí svoleiðis dónaskap á dansgólfinu.
fimmtudagur, mars 18, 2004
Vá, það er allt of snemmt fyrir nátthrafn eins og mig að vakna svona klukkan sex á morgnana, nú er klukkan ekki nema rúmlega átta og ég er samt alveg að leka niður í vinnunni... Ég er samt í baðstofunni svo það er nánast ekkert sem ég þarf að gera nema brosa, rétta fólki handklæði og ausa vatni á grjót á klukkutíma fresti. Svo ég er alveg að sofna, zzz... Svo er auðvitað enginn mættur á msn á þessum ókristilega tíma til að skemmta manni og ég hef mjög takmarkað þol fyrir lestri kvennatímarita, eftir tvö/þrjú langar mig bara ekkert að vita hvort Jordan og Peter Andre séu alvöru par eða bara athyglissjúk og ef Jennifer Aniston lætur Brad Pitt barna sig sé ég ekki alveg hvar ég kem inn í dæmið...
miðvikudagur, mars 10, 2004
Úff, ég ætlaði aldrei að ná að losa mig við þessi spurningamerki, ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ástæðan fyrir því hversu illa mér gengur í tölvumálum væri að ég skildi ekki tölvuna en nú virðist mér hún eiga í svipuðum vandræðum með mig... Sem er léttir, ég er þá allavega flóknari en ég gaf mér kredit fyrir.
Ég er í tölvustofunni og á að vera að gera teikningu af húsinu mínu í vektor works en Unnsa álfur gleymdi grunnteikningunum heima svo nú er ég bara að drepa tímann fram að vinnu. Svaka stuð.
Er að fara á eftir að sækja um vinnu fyrir sumarið, ég veit ekkert hvað ég get fengið mikla vinnu í World Class í sumar eða hvar ég á annað borð verð í heiminum svo ég ætla bara að sækja um fullt og vona að ég fái eitthvað.
Já, og ég er hætt að dansa við strákinn sem ég var að dansa við (surprise, surprise...) svo ég er að leita að nýjum ef einhver af ykkur er búinn að vera að leyna mig skuggalegri fortíð í dansi.
Annars kemur það í ljós á eftir hvort ég er ekki bara að fara að gera soldið skemmtilegt í vor (og svaaakalega fyndið) sem ég segi frá um leið og það er ákveðið. Ég veit allavega um eitt stykki wannabe Svía sem á eftir að gráta af hlátri :)
mánudagur, mars 08, 2004
Þá er ég víst búin að halda goggi ansi lengi hérna, og get ekki einu sinni sagt að það sé sökum anna því það er eiginlega búið að vera óvenju lítið að gera uppá síðkastið. Ég virka bara ekki ef það er ekkert álag, þá fer ég beint í letigírinn. Ég er reyndar búin að eyða miklum tíma með höfuðið í bleyti, er að reyna að ákveða hvað ég á að gera í sumar, hvort ég á að vera heima eða stinga af út og hvert út þá, hvað ég á að gera næsta vetur, verkfræðihlé eða ekki verkfræðihlé... Hjálp!!! Ef einhver er tilbúinn að taka af skarið og taka þessar ákvarðanir fyrir mína hönd er það meira en velkomið og ég bendi á kommentakerfið.
En nýjustu fréttir:
a) Fór á árshátíð verkfræðinema á Hótel Örk, sem var fínt, strákar að dansa eighties eru alltaf sniðugir, komst samt að því að strákar eru kjánar (fékk veiðilínuna "Volvóinn minn jafnast ekkert á við þig", úff...) og endaði á að elta stelpurnar allt kvöldið, sem var mjög skemmtilegt.
b) Vann voða mikið í klassinu svo tærnar mínar eru í uppnámi í augnablikinu eftir óhóflegar stöður bakvið afgreiðsluborð.
c) Fór í matarboð sem lukkaðist fínt og ég þakka gestgjöfum og öðrum viðstöddum hérmeð kærlega fyrir mig, skemmtilegt kvöld :)
d) Fór líka í bíó að sjá American Splendor, sem ég vissi ekkert um þegar ég mætti á svæðið en komst að því að hún er algjör snilld! Fékk líka smá tækifæri til að spjalla við hana Möggu mína sem var mjög nauðsynlegt.
e) Hm, var að tala við Hrefnu meðan ég ritaði þetta og hún er að reyna að plata mig með sér í dansskóla í Danmörku... Athyglisvert... Ég er alveg ringluð... :s
f) Er ég ekki skipulögð?! :)
mánudagur, febrúar 23, 2004
Síðustu vikur er ég búin að komast að því að næstum allur vinahópurinn minn er búinn að kúldrast í skápnum alla sína hunds og kattartíð en virðist líka allur tilbúinn að koma út úr honum núna, enda nóg komið. Þá er ég ekki að tala um þennan klassíska skáp þeirra sem girnast eigið kyn (enda væri það ekkert merkilegt þar sem stór hluti vina minna er löngu kominn útúr þeim lúna skáp, orðið frekar þreytt mál) heldur dansskápinn, þéttsetnari mublu en mig hefði nokkurn tímann grunað. Og nú vilja þessi ungu dansfífl með sínar blöðrulausu tær endilega að ég kenni þeim að dansa, ég er að fá fyrirspurnir úr ólíklegustu áttum, sem er mjög skemmtilegt (alltaf gaman að vera vinsæll) en ég þarf að leggja höfuðið ansi vel í bleyti ef ég á að geta gert eitthvað úr þessu máli þar sem ég er ryðgaðri en fólk virðist gera sér grein fyrir. (Þá er ég að tala um samkvæmisdansa, hin tegundin af dansfíflunum er að fá útrás nú þegar). Ég er að vinna í að leysa þetta mál, veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því en það er semsagt í vinnslu... Vil endilega fá þessar elskur til að dansa með mér, það er ekkert skemmtilegra til, en þarf að reyna að finna leið til að búa til svona "allir dansa saman" aðstæður frekar en "Unnur kennir öllum að dansa" aðstæður því ég er bara of mikið kjánaprik í þessarri deild þessa dagana til að geta það :) Ég er nú samt ferlega ánægð með ykkur sko!!! (Þau fáu ykkar sem aksjúalli lesa þessa síðu... hmm, oh well, hringi í rest...)
fimmtudagur, febrúar 19, 2004
Vá, ég var að koma af æfingu og ég er ekkert smá glöð. Það er örugglega mjög smáborgaralegt að gleðjast yfir svona en ég ætla að gera það engu að síður. Með okkur á æfingu voru semsagt núverandi heimsmeistarar í samkvæmisdönsum og þau voru svooo flott, það var magnað! Að vísu fengu þau mann til að sjá alla sína eigin galla í tíunda veldi og ég varð á mettíma feit, skakklöppuð og afskaplega taktlaus en það var alveg þess virði, flott að sjá par hafa svo gaman af því sem það gerir að það næstum fellur bara í trans og tekur ekki eftir neinu í umhverfinu nema hvoru öðru. Tvímælalaust besta æfing sem ég hef farið á lengi :)
þriðjudagur, febrúar 17, 2004
Annað fólk skilur engan veginn af hverju mér er svona gasalega illa við að fara til tannlæknis. Alltaf þegar ég fer gerast kjánalegir hlutir (svolítið eins og hjá Phoebe, mínus dauðsföllin...) og heimsókn mín þangað í morgun er lýsandi dæmi. Þegar ég kem til að láta föndra svolítið er það fyrsta sem ég heyri tannlækninn minn segja við klínikdömuna að hún sé orðin svo lasin að hún sjái varla lengur, hvað þá standi í lappirnar, og hún verði að afpanta alla tíma það sem eftir sé dagsins. Nema minn!!! Jibbí. Ég fékk að sitja með opinn gúlann á meðan hálfmeðvitundarlaus tannsi reyndi að greina milli tannanna á mér gegnum flensumóðuna. Ég skelf ennþá...
Við Sófus
Ég á í mjög uppbyggjandi og gagnlegu sambandi við sófa. Alltaf þegar ég þarf að hugsa um tilgang lífsins og vinna úr hinum og þessum kvíðaköstum leggst ég á sófann hennar Lilju, skýt þar rótum í minnst hálfan sólarhring í einu, missi yfirleitt meðvitund allavega einu sinni í hvert skipti og kem út betri manneskja. Svo það er greinilega rétt hjá amerísku bíómyndunum að það sé geðheilsunni í hag að fara til sálfræðings reglulega, liggja þar á sófa og láta leysa úr krísunum, eini misskilningurinn virðist samkvæmt mínum rannsóknum vera að sálfræðingurinn sé mikilvægur hluti jöfnunnar, sófinn gerir greinilega sitt gagn algerlega án hans. Allavega þessi umræddi sófi, langaði bara að mæla með þessu svona þegar skammdegisþunglyndið er að ná hámarki... Allir í sófann!
laugardagur, febrúar 14, 2004
Þá er ég komin í skólann á laugardags,,morgni" til að gera verkefni í hinum afskaplega slappa áfanga ,,verkfræðingurinn og umhverfið". Rétt náði að toga mig fram úr rúminu eftir tveggja tíma svefn (magapest, foj) og hvað bíður mín svo þegar ég kem hingað, slöpp og sveltandi (með serios í poka, alltaf bjartsýn...) ? Jú, verkefnafélagi sem er of upptekinn við að skrifa pennavini sínum í Svíþjóð til að læra nokkurn skapaðan hlut. Ég er ekki sátt.
þriðjudagur, febrúar 10, 2004
R.I.P rúðuþurrkur...
Ég sit hér á Reykjalundi í básnum hennar mömmu (samviskusamlega skreyttum vitnisburðum um öll afrek mín í gegnum tíðina auðvitað) og bíð eftir rúðuþurrkuviðgerðamanninum (a.k.a. pabbi). Það er alltaf afskaplega fræðandi að koma hingað, skil ekkert í því af hverju "the Office" er að vekja svona mikla athygli þessa dagana þegar hér er alvöru skrifstofa með mikið athyglisverðara dýralífi. Ég geng allavega alltaf hressari héðan en ég kom og það verður nú ekki sagt um margar skrifstofur, venjulega fær maður kaldan svita og athyglisbrest við það eitt að stíga inn á þær. Stelpur eru sniðugar!
fimmtudagur, febrúar 05, 2004
Hvar eru lærin mín?
Fór í fyrsta skipti að æfa í World Class í morgun, í Spöngina til Hrefnu og það var æðislegt alveg, svaka fín stemmning hjá þeim. Eini gallinn er að ég virðist hafa týnt lærunum mínum þar... Það er þó ekki svo gott að þau hafi minnkað, ég sé þau alveg ef ég lít niður, þau virðast bara hafa misst tengslin við afganginn af líkamanum, ég finn ekkert fyrir þeim og þau virka ekki undir álagi, hrundi næstum á hausinn í danstíma áðan þegar annað þeirra skyndilega gaf sig... Sem er hreint ekki mjög pent eða dömulegt á að horfa.
Annars virðist líf mitt fara fram að miklum hluta til fyrir framan spegla þessa dagana, í World Class og dansinum, sem hefur leitt til skyndiheilsuátaks.
Birt af Unnur kl. 18:35
þriðjudagur, febrúar 03, 2004
Kannski kominn tími á að láta vita af sér? Jæja, ég er búin að vera afskaplega upptekin, byrjaði að vinna í World Class sem er frekar tímafrekt alltsaman, en ekkert á við danskennsluna fyrir Skeljung, það var nú mesta tímaryksuga sem ég hef komist í kynni við! Ef það hefði ekki verið svona svakalega gaman væri ég örugglega pirruð yfir öllum tímunum sem fóru í að semja þetta og kenna, en þetta var alveg æðislegt alltsaman, gott fólk sem gaf sig allt í þetta og ég er mjög fegin að hafa tekið þetta að mér :) Endaði svo allt með árshátíð á föstudaginn með tilheyrandi spennufalli og kvíðaköstum, svaka stuð! Skeljungarnir mínir stóðu sig svona líka eins og hetjur og eyddu kvöldinu í að þiggja drykki og hrós frá þakklátum starfsfélögum á meðan ég eyddi minni orku að mestu í að passa að hlýralausi kjóllinn minn héldist upp um mig (sem hann gerði að mestu, rúmba er hættuleg!). Einn af Skeljungunum reyndist vera samkvæmisdansari inni við beinið svo nú á að taka fram dansskóna og fara að æfa svoleiðis aftur, sem er einmitt það skemmtilegasta sem ég geri svo ég er voða spennt :) Skólann stunda ég svo milli mála... Skeljungarnir hvöttu mig svo til að hafa danstíma áfram fyrir starfsfólkið þar, held það hafi átt að byrja skráningu í dag og ég vona bara að einhver skrái sig, þetta er ekkert smá skemmtilegt alltsaman og magnað hvað smá hopp og dill gefur fólki mikið (myself included).
Að lokum langar mig að segja að þið sem haldið því alltaf fram að ég hljóti að vera dauð þegar ég blogga ekki eruð ekkert að hafa fyrir því að hringja og tékka á mér (ha, Gunni!!!) svo ég fer að verða pínu sár... ;)
laugardagur, janúar 24, 2004
Ég er enn á lífi og meira að segja bara frekar vel haldin, svo þið getið hætt að hafa áhyggjur. Ég er bara í fullu háskólanámi, tveimur vinnum og byrjuð að dansa aftur svo það er ekki neitt svakalega mikill tími til skrásetningar þessa dagana! Ég skal skrifa meira einhvern næstu daga, nú þarf ég að teikna hús...
þriðjudagur, janúar 06, 2004
Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna :)
Ég eyddi áramótunum í Víkinni og sé sko ekki eftir því, það var voða gaman. Að vísu missti ég af áramótamatnum hennar ömmu (sem er alls ekki smá fórn að færa!) en fékk í staðinn að vera tökubarn foreldra Ásu og borðaði áramótamatinn hjá þeim. Hann var auðvitað algert sælgæti, forréttur, tvíréttað í aðalrétt og svo var víst eftirmatur á dagskrá en það var einróma samþykkt að slúffa honum blessuðum af ástæðum augljósum öllum þeim sem borðað hafa á þessu heimili! Ég gat bókstaflega ekki staðið upp og missti þessvegna af brennunni :) Sem betur fer var Fjalar í sama ástandi sem gerði það mikið skárra að líða eins og Bangsímon og komast ekki út úr holunni sinni vegna ofáts, við horfðum á innlenda fréttaannálinn og erum þess miklu fróðari fyrir vikið.
Skaupið fannst mér alls ekki eins slæmt og öllum öðrum virðist hafa fundist það, kannski svolítið slappt en ég flissaði helling og það nægði mér. Svo komu áramótin og mér var hent út að horfa á flugeldana, en eins og flestir sem mig þekkja vita hef ég mjööög takmarkaðan áhuga á svoleiðis löguðu. Þetta hefði getað endað með mestu leiðindum hefði ekki minn sérdeilis prýðilegi gestgjafi Guðrún verið búin að sjá fyrir þessu, hún setti fiðrildi á hausinn á mér sem sveifluðust skemmtilega þegar ég dillaði mér. Það vita líka flestir sem mig þekkja að þótt flugeldar skemmti mér ekki þýðir það ekki að það þurfi mikið til að skemmta mér! :) Ég semsagt dillaði mér í ca klukkutíma meðan flugeldarnir komu og fóru og hafði það svo ágætt bara.
Þá var haldið á kaffihúsið góða þar sem hinn eini sanni Fjalar Hauksson hélt uppi fjörinu, þar var sungið og dansað af miklum metnaði og er talið víst að aðsókn á kaffihúsið hafi slegið við aðsókn á ball sem átti víst að vera algert ÆÐI (híhí) svo tónlistarpésarnir geta víst verið stoltir af því.
Þegar blöðrur á puttum hindruðu frekari tónlistarflutning var haldið heim til Guðrúnar þar sem fjörið hélt áfram fram til morguns, partíið hélt áfram í 5 tíma eftir að ég var komin í uglunáttfötin mín, sem er nú bara nokkuð gott!
þriðjudagur, desember 30, 2003
Þá er ég komin heim aftur, merkilegt hvað það er alltaf yndislegt að stíga yfir þröskuldinn heima hjá sér. Verst að nú er svo mikill snjór í götunni minni að ég kemst ekki út aftur, en ef maður ætlar að vera strand einhversstaðar er best að það sé á manns eigin heimili en ekki flugvellinum á Akureyri eins og allt stefndi í áðan. Þetta var frekar skrautlegt ferðalag hjá okkur í dag. Fyrst snéri vélin sem var á leiðinni að sækja okkur á Vopnafjörð við vegna þess að það gleymdist að setja í hana sæti (!!!), svo vorum við strandaglópar á Akureyri í nokkra tíma áður en við hringsóluðum yfir Reykjavík ferlega lengi meðan verið var að hreinsa mesta snjóinn af flugbrautinni. Huggulegt. Við hristumst alveg ferlega í rokinu yfir borginni en við mamma hugguðum okkur við það að þeir gætu ekki látið okkur hrapa, ekki með allt þetta fræga fólk í vélinni. Þetta var algert Séð & Heyrt blað bara, Jón Gnarr, Logi Bergmann (með skvísuna sína sem ég man aldrei hvað heitir) og Jónsi svartklæddi. Ég hef nú aldrei verið neinn ákafur aðdáandi þess síðastnefnda, hélt hann hlyti að vera á lyfjum fyrst hann var alltaf svona kátur, en ég verð nú að gefa honum það kredit að hann var mjög aðlaðandi svona í eigin persónu, ferlega huggulegur og kom vel fyrir bara. Svona getur sjónvarpið blekkt okkur skítugan almúgann.
fimmtudagur, desember 25, 2003
Hjá stóra brósa var vistin góð, ég er svakalega glöð að hafa gefið mér tíma til að heimsækja þau. Skotturnar tvær eru algerir snillingar, ekki amalegt að vakna við það að tvær hlýjar prinsessur skríða undir sængina manns og knúsa mann. Við púsluðum, skreyttum og sungum hástöfum og nú verð ég að læra að setja inn myndir svo ég geti sýnt ykkur ferðamyndirnar, sem eru algert æði :) Við Nonni brölluðum líka ýmislegt, drukkum bjór (aldrei gert það saman áður) með frekar sorglegum árangri, ég skaut af byssu (út í loftið auðvitað, Unnsa litla grænfriðungur) keyrði traktor og rifjaði upp vináttu mína við sauðkindina, sem er auðvitað vanmetnasti snillingur landsins fyrr og síðar. Átti semsagt að skilja þær kollóttu frá þeim hyrndu en eins og flestir líklega vita vantar á þær handföngin svo ég sýndi frekar skrautleg tilþrif, greinilega orðin ryðguð í þessarri list.
Nú er ég stödd í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa á Bakkó, þar sem ég virðist aldrei geta borðað nóg. Fékk auðvitað fullt af góðum gjöfum sem ég ætla ekki að telja upp hér. Kem svo heim 29. og hlakka ferlega til að hafa tíma í jólafríinu til að hitta vini mína sem ég hef vanrækt gróflega síðustu mánuði, er í óða önn að skipuleggja fríið og áramótin, þetta verður svaka stuð :) Hugsið til mín í útlegðinni!
Gleðilega hátíð kæru jólapésar og afsakið fjarveruna :) Ég var nú í fyrstu háskólaprófunum og frekar upptekin við að reyta hár mitt og skegg! Og það er stranglega bannað að spyrja mig hvernig gekk en blóm og kransar sendist heim til mín sem fyrst... Úff, tímamót í lífi Unnsu litlu, féll í fyrsta prófinu mínu og það er ofmetin reynsla, hafði enga ánægju af því. Mín eina sjálfselska huggun er sú að ég féll allavega ekki ein, og langt frá því! Faaaaaallin, með fjóra komma níu, lalalalalalalala... Æ, það hlaut að koma að því, ég verð bara að rífa mig upp og reyna að standa mig betur í vor. Enda kannski erfitt að gera verr... Úps...
Á laugardaginn var svo tekið til við að fagna því að ósköpunum væri lokið, og það tókst alveg með ágætum, þrátt fyrir ofþreytu og spennufall. Ég var krýnd kvenmeistari í Trivial (reyndar víst ekki mjög erfiður titill að ná...) og dansaði hallærislega við hallærispésana Gullfoss og Geysi. Reyndi svo að heilsa uppá eiginmanninn með litlum árangri, fraus svo og sá mér þann kost vænstan að skríða undir sæng um sjöleytið, og kúra mig þar í nokkra (les. alltof fáa) tíma áður en ég varð að fara að kaupa jólagjafir handa liðinu. Það gerði ég svo hálfsofandi, úfin og angandi af annarra manna sígarettureyk á þeim aðdáunarverða tíma tveim klukkustundum, allt í Máli og Menningu og Hagkaupum. Takk fyrir mig! Skutlaðist heim, pakkaði niður, kvaddi köttinn og rauk af stað til Egilsstaða að rækta fjölskylduböndin. Á leiðinni ræddi ég við sagnfræðinema um ástandið í Írak og Afganistan, með smá stoppi í Ísrael og Palestínu og voru það án efa innihaldsríkustu "in-flight" samræður sem ég hef átt hingað til. Úff, þetta er svo langt að ég skipti þessu bara í fleiri pósta. Frh...
þriðjudagur, desember 09, 2003
Ég vil gjarnan þakka honum Gunnsa listaspíru fyrir að gera á föstudaginn heiðarlega tilraun til að gera líf mitt ögn menningarlegra svona í skammdeginu. Skemmtileg sýning fyrsta árs nema í Listaháskólanum, ekki að ég hafi skilið helminginn af þessu en var samt mjög gaman að sjá hvað allir hinir eru að gera, maður er búinn að liggja í hálfgerðum félagslegum dvala. :) Verkið hans Gunna fannst mér svalt, sá það strax í hendi mér að hér væri líka komið einstakt tækifæri fyrir mig. Hann var nefnilega búinn að útbúa svona lítið herbergi sem er auðvitað mikið nær öllu en herbergið mitt í Mosó, svo Gunni minn, er séns að ég fái að leigja þetta hjá þér í vetur?...
laugardagur, desember 06, 2003
Bíllinn minn er ágætis félagi minn, við skiljum hvort annað yfirleitt og gerum okkar besta til að láta hvoru öðru líða vel (fyrir utan að ég hef ekki þvegið hann að utan síðan við kynntumst...). Ég hélt við þekktumst bara vel, þar til sú skýjaborg hrundi í morgun. Bíllinn minn er ósyndur. Alveg. Breikaði alla leið í bæinn svo meistaralega að hvaða ´88 töffari sem er hefði verið stoltur af. Ég var hinsvegar ekki stolt, hikstaði og hoppaði á 60 allan Vesturlandsveginn og stækkaði aðdáandahópinn minn lítið við athæfið. Vona að það verði ekki rigning í fyrramálið...
föstudagur, desember 05, 2003
miðvikudagur, desember 03, 2003
Það eru áreiðanlega ekki margir sem eiga eftir að hafa vit á að gleðjast yfir nýjustu uppgötvun minni en hér er hún samt: Ég er búin að finna á netinu mestu snilld sem ég veit til að hafi verið gerð í jóladagataladeild heimsins! The Julekalender!!! Munið ekki, þar sem nissarnir tala hálfpartinn dönsku og hálfpartinn ensku og skemmtilega púkó fjölmenningarleg tónlistaratriði inn á milli? Yndislegt, vei! Er að hlaða því inn á tölvuna í þessum töluðu, hlakka ekkert smá til að setjast niður eftir próf og góna á þetta. Takk Annelise fyrir að deila þessu með íslensku moldbúunum :)
Ég fór semsagt á tónleika MS kórsins míns gamla á föstudaginn og það var bara mjög ánægjulegt. Dagskráin var næstum nákvæmlega sú sama og í "gamla daga" sem gerði þetta þess mun skemmtilegra því maður gat raulað inní sér með öllum lögunum og endurupplifað "ísí písí" menntó. Komst að því að þetta var alls ekki svo slæmur tími, fyrir utan kannski gluggatjöldin og lyktina... Nokkrir höfðu líka gengið ennþá lengra en ég í að reyna að ímynda sér að þeir væru menntskælingar og sungu einfaldlega með, hátt og snjallt. Mér fannst það svalt hjá þeim, um að gera. Og ekki má gleyma að Ingunn spilaði undir af alkunnri snilld og sýndi þar að auki ógleymanlega takta í miðasölunni! En merkilegustu athugun kvöldsins átti án efa Gunni: ,,Ætli þau séu að safna fyrir ferð til Póllands?" Rétt´upp hönd sem kannast við þetta! :)
laugardagur, nóvember 29, 2003
Alveg er það magnað hvað hausinn á manni getur verið þversum, nú er ég búin að sitja á bókó í allan dag og strand á sama dæminu allan tímann! Mér líður samt mikið betur að vera hér en að sitja heima, jafnvel þótt ég komi engu í verk. Þess má geta að ég er á bókó í þessum töluðu og er bara að blogga til að hafa afsökun fyrir að hvíla mig á bannsettu fylkinu sem ekki vill hlýða mér...
Ég fór annars í síðustu pásu í Húsó að kíkja á hvað hún Ingunn er búin að eyða tíma sínum í þessa önnina og ég er nú eiginlega bara abbó. Af hverju finnst mér allt í einu allir sem ég þekki vera að gera eitthvað skemmtilegt og slaka aðeins á á meðan ég er að gróa föst við stólinn minn á bókasafninu? Ég er að verða svolítið bitur eiginlega!
miðvikudagur, nóvember 26, 2003
Ég veit að það er hvorki komin aðventa né 1. desember, og ég veit að fólk, þar með talin ég (þar til annað kemur í ljós allavega), er endalaust að nöldra yfir því að jólaundirbúningurinn byrji of snemma. En ég verð að játa mig sigraða í þetta skiptið. Það er kominn snjór, lager heimilisins telur bæði mandarínur og piparkökur, það er komin jólastöð í útvarpið, ég er farin að læra fyrir prófin, og ég er komin í jólaskap!!!
Af því tilefni að ég er komin út úr jólaskápnum ætla ég á jólatónleika í Langholtskirkju á föstudaginn með öðrum virkum jólaálfi, honum Gunna, og eftir það veit ég að ég verð ekki mönnum sinnandi vegna óhóflegs hátíðaskaps, vildi bara vara ykkur við...
sunnudagur, nóvember 23, 2003
Já, gleymdi því, ég sá hinn fjölskylduvæna skemmtiþátt Gilla Marteins endurtekinn í dag, og komst að því að hann hefur sömu hlýlegu leiðindin til að bera og Hemmi hafði á sínum tíma, manni hlýnaði öllum að innan og fékk gömlu góðu öryggistilfinninguna, beið bara eftir að einhver yrði spurður hvort hann legði ennþá stund á knattspyrnu... Mjög gott, og ekki versnaði það þegar Icy Spicy Leoncie birtist og uppfærði tískuvitundina mína, sem var orðin ansi rykfallin eftir óhóflega innilokun á bókasafni. Og nú brennur á mér ein spurning; hvar fæ ég eiginlega svona belti???
Eftir að hafa eytt deginum í að reyna að finna hverjum hlut sinn stað í herberginu mínu hef ég komist að mjög merkilegri niðurstöðu um hvert vandamálið sé. Það kemur í raun tvennt til greina; of fáir staðir eða of margir hlutir. Ég hallast að því síðarnefnda en þegar maður er orðinn svona stór þá á maður orðið meira af hlutum og minna af drasli en áður og ekki lengur hægt að leysa vandamálið einfaldlega með því að henda draslinu (sama hverju mamma heldur fram!). Svo nú er bara eitt til ráða. Veiðiferð í IKEA!!! Þar eru nefnilega seldir staðir, meðan næstum allar aðrar búðir selja hluti. Merkilegt, ekki satt?
miðvikudagur, nóvember 19, 2003
Ég held ég sé haldin einhverskonar svefnsýki, ég er þreytt allan daginn alla daga og alveg við það að missa meðvitund á bókasafninu dag eftir dag, og samt sef ég mikið meira en vanalega, ég skil ekki... Kannski er samsæri í gangi í skólakerfinu, allir máladeildarnemar skilyrtir til að detta út þegar þeir koma of nálægt stærðfræði... Ég er allavega ekki sátt, nú fer að líða að prófum og þrálátt meðvitundarleysi er ekki alveg það sem ég þarf þessa stundina.
Annars ætla ég að gefa sjálfri mér það í jólagjöf að heilda og diffra allt jólafríið svo ég eigi séns í stærðfræðigreininguna eftir jól, það væri mjög ljúft að geta klárað hana því ég hef alltaf ímyndað mér að þegar ég nái þeim áfanga verði ég endanlega búin að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti þetta alveg.
Æ, þetta bjargast alltsaman, verst að foreldrar mínir eiga eftir að sitja uppi með mig alvega ferlega lengi meðan ég sniglast í gegnum þetta!
þriðjudagur, nóvember 18, 2003
Trausti brást trausti mínu í dag. Og ég þurfti að hringja í pabba minn til að biðja hann um að skipta um dekk fyrir mig. Og þótt hann kæmi að vörmu spori með bros á vör fannst mér það samt sorglegt og hef heitið sjálfri mér því að næst þegar allur vindur verður úr Trausta mínum ætla ég sjálf að skipta um dekk, ég kann það nefnilega alveg svona í kenningunni, hef bara aldrei gert það í alvörunni. Það er samt víst ekki alveg það sama, allavega yrði mér ekki alveg rótt ef ég væri að fara í aðgerð og skurðlæknirinn segði mér að hann hefði að vísu aldrei skorið neinn upp áður en hann væri búinn að lesa bókina voða vel... En þetta er samt planið semsagt, að geta skipt um mín eigin dekk í staðinn fyrir að vappa í kringum bílinn að þykjast gera gáfulega hluti meðan pabbi minn gerir það fyrir mig.
(Get samt ekki ennþá fengið vídjóið mitt til að taka upp af stöð tvö svo þetta gæti verið óþarfa bjartsýni, við sjáum til...)