mánudagur, mars 12, 2007

Sólskinsbarn

Ég fór í sólbað í dag! Meira að segja svolítið íslenskt sólbað, því ég var með gæsahúð allan tímann, en það var heiðskýrt og þá er ég skilyrt til að hypja mig út með bókina mína. Fór á "Ströndina í Strasbourg", sem er ekki strönd heldur kaffihús við ána mína en þar er allavega hægt að liggja í sólstól og þykjast vera á strönd. Var mjög indælt þar til álftin tók sig til og skvetti skítugu vatninu á mig, en hvað leggur maður ekki á sig til að ná sér í smá sólarglennu? Og lögfræðingsgerpið hefur allavega ekki fundið mig á þessu kaffihúsi ennþá... Fer að verða uppiskroppa með lögfræðingslaus kaffihús hér í borg, þetta er síðasta kaffihúsið sem ég veit um í miðbænum sem sólin nær til og lögfræðingurinn nær ekki til.
Á laugardaginn var ég dregin til Colmar með Nathalie og Daniel, kærastanum hennar, og við áttum mjög fínan dag á röltinu þar. Daniel talar ekki frönsku svo við töluðum ensku allan tímann, fín hvíld fyrir hausinn minn litla. Þau eru svo ótrúlega mikil nörd að það er frábært, hafa meðal annars búið til sína eigin Star Wars mynd. Yndislega fólk.

Engin ummæli: