fimmtudagur, mars 22, 2007

Gleði í hverfisbúðinni

Það eru alltaf svo yndislegar gamlar konur í hverfisbúðinni minni, og það er eins og þær finni á sér þegar maður er leiður og þarf á gömlukonuást að halda. Áðan fór ég í búðina í mjög aumlegu ástandi, í miðju kafi að skrifa ferlega leiðinlega skýrslu um annars skemmtilega Evrópuviku, og í þokkabót lasin (því Íslendingurinn ég þolir ekki 5°c heita kjarnorkuveturinn sem er skollinn á hérna skyndilega). Ég er ekki fyrr mætt í búðina og farin að þukla epli en það fer gömul kona eitthvað að vandræðast. Hún er tæknilega séð fyrir mér en mér er alveg sama því ég er ekkert að flýta mér aftur upp til skýrslunnar, svo ég brosi bara og þukla fleiri epli. Svo elti ég gömlu konuna í röðina hjá ávaxtavigtinni þar sem hún vandræðast meira, og er farin að afsaka sig endurtekið fyrir að tefja mig. Ég sagði henni sem var að það biði mín ótrúlega leiðinleg skýrsla heima svo þess meiri tíma sem hún gæti tekið í að vandræðast með fisk á ávaxtavigtinni þess mun betra væri það fyrir mig. Hún segir að þetta sé allt af því hún hafi hjólað í búðina og sé svo kalt á höndunum að þær virki ekki almennilega. Þá lifnar yfir mér því sem Íslendingur kann ég fátt betur en að formæla veðurguðunum, jafnvel þó það sé á frönsku. Hún er ekki lengi að komast að því að ég sé Íslendingur, og rétt áður en myglaða, úfna, lasna og geðvonda ég stekk af stað til að klára skýrsluna og borða súkkulaðið sem ég var að kaupa mér til að hjálpa við sjálfsvorkunnina þá grípur hún í handlegginn á mér og segir: "Þó þú komir frá köldu landi, þá er sól í hjartanu þínu". Takk elsku gamla kona. Bjargaðir deginum algjörlega.

Engin ummæli: