miðvikudagur, mars 07, 2007

Ferðasaga í flugumynd

Jahá. Ég semsagt fór til Parísar með Mathilde, og við gistum hjá foreldrum hennar. Það svoleiðis lak af þeim gestrisnin að ég fékk mitt eigið herbergi með fínu rúmi en Mathilde og systir hennar sváfu saman á litlum sófa í stofunni. Ég reyndi að malda í móinn en það gekk ekki upp. Við vöknuðum úthvíldar á laugardagsmorgni, borðuðum brauð með söltuðu smjöri og villihunangi sem foreldrar hennar söfnuðu við sumarhúsið þeirra í Bordeaux. Mjög smart alltsaman. Svo fórum við í svakalegan göngutúr um borgina, Eiffel-turninn, les Invalides (m.a. ósmekklega grafhýsið hans Napóleons), Alexander 3. brúin, Champs Élysées (þar sem við fórum inn í Louis Vuitton, flottustu búð sem ég hef komið inn í á ævinni, ég var litin áberandi hornauga í gallabuxum og Converse skóm...), Sigurboginn, Concorde-torgið, Óperuhúsið, Grand Palais og Petit Palais, Louvre (bara sýnishorn auðvitað), listinn er endalaus enda var ég búin að ganga fæturna á mér upp að hnjám í lok dags. Við borðuðum voða fínan grískan mat heima hjá Mathilde um kvöldið (eftir að fjölskyldan hafði setið öll í hring og látið mig segja frá öllu sem við gerðum um daginn, á frönsku, og glaðst innilega yfir hverri sögn sem ég beygði rétt), kíktum svo út í rauðvínsglas og rétt komumst heim á miðnætti áður en það hreinlega leið yfir okkur af þreytu.
Mathilde var ekkert minna strangur leiðsögumaður á sunnudeginum, eftir meira brauð með hunangi var rokið af stað að sjá Ile de la Cité, ráðhúsið, Notre Dame kirkjuna (þar sem við duttum beint inn í þessa líka fínu messu) og þar fyrir framan miðju Parísarborgar (sem mér fannst fáránlega skemmtileg en Mathilde skammaðist sín endalaust fyrir túristabjánann sem hoppaði á öðrum fæti og skríkti af gleði), Saint-Chapelle, nútímalistasafnið og enduðum daginn á að kíkja aftur í Louvre (ég get ekki skoðað nema brotabrot af því í einu, verð álíka heiladauð og í Kringlunni af öllu áreitinu og ruglinu, allt vaðandi í túristum með heyrnatól "following in the footsteps of the daVinci code"). Um kvöldið (eftir aðra sögustund í boði Unnar, íslensku furðuverunnar) var borðuð súpa sem var grunsamlega lík íslenskri kjötsúpu, horft á Ferðalag keisaramörgæsanna og svo farið í háttinn. Klukkan tíu. Ekki alveg það sem ég er vön að gera í útlöndum en mjög skynsamlegt eftir allt labbið.
Eftir hunangsbrauðsát á mánudagsmorgni skelltum við okkur í smá verslunarleiðangur og svo heim í hádegismat. Ég var svo drifin af stað með farangurinn minn á bakinu að skoða Montmartre, Moulin Rouge (Mathilde var búin að hóta því alla ferðina að selja mig þar ef ég hagaði mér ekki, en ég var búin að vera hlýðin eins og hundur alla ferðina og fékk því að eiga mig sjálf örlítið lengur), og eftir það höfðum við ennþá nokkra tíma áður en ég átti að mæta á lestarstöðina. Ég var farin að skilja hvernig litlu hafmeyjunni leið þegar henni fundust hnífar stingast upp í iljarnar á henni í hverju spori, og stakk í sakleysi mínu upp á að setja bara niður á kaffihúsi til að drekka í okkur mannlífið. Mathilde féll ekki fyrir þessu ódýra bragði mínu, og þrammað skyldi um borgina fram á síðustu mínútu. Ég elti, enda vel upp alin og undirgefin stúlka. Ég var svo glöð þegar ég loksins settist niður í lestinni um sexleytið um kvöldið að ég hefði getað grátið af hamingju.
Allt í allt frábær ferð, Mathilde stóð sig vel sem leiðsögukona með aga á liðinu, og fjölskyldan hennar var yndisleg við mig. Ég vil helst hanga endalaust á kaffihúsum þegar ég fer í borgarferðir og horfa á fólkið, svo það var gaman að prófa að fara í svona allt öðruvísi ferð, þar sem afköstin voru töluvert meiri en þau eru venjulega hjá mér. En eníhú, fleiri myndir:
Kom 10 mínútna skúr í Tuilerie garðinum, sem var algerlega þess virði því eftir hann kom þessi líka fallegi regnbogi beint fyrir ofan Louvre-safnið. Þarna tókst mér loksins að fá Mathilde til að slaka örlítið á, setjast við þessa fínu tjörn og horfa á börnin leika sér með bátana sína. Þetta vil ég gera þegar ég ferðast. (Eftir smástund breyttist þessi leikur í annann og verri leik, horfa á ítölsku karlana leika sér með bátana sína, með sígarettu hangandi úr munnvikinu. Ekki jafn rómó og við flúðum inn í Louvre.)

Mathilde var ekkert of sátt í slökuninni en lét sig hafa það þessi elska



Eina hópmyndin sem var tekin í ferðinni. Tekin á hvolfi reyndar en það er ekkert annað í boði. Fallegt sjónarhorn svona beint upp í nasirnar á manni líka


Ég var heilluð af þessarri ömmu og barnabarninu hennar að leika sér með bátinn sinn. Mathilde var heilluð af því hvað ég hafði áhuga á röngum hlutum við borgina

Við Notre Dame tók ég myndir af ufsagrýlunum. Aftur varð Mathilde heilluð af hæfni minni til að fara algjörlega á mis við pointið


Ég lét Mathilde setjast í skó sem mér fannst fyndinn. Henni fannst ég ekki fyndin


Ég á líka fullt af túristamyndum af hinum og þessum gömlu húsum en ákvað að hlífa ykkur í þetta sinn. Ekkert að þakka.

Engin ummæli: