miðvikudagur, júní 13, 2007

Heimsóknin fína - myndir

Ég stend á haus í flutningum, þarf að ferja allar mínar veraldlegu eigur yfir ána og í nýju íbúðina mína sem er í ca. 200 metra fjarlægð frá þeirri sem ég er í núna. Mjög þægilegir flutningar, en samt ekkert grín í 30 stiga hita. Svo núna tek ég verðskuldaða vatns- og bloggpásu.
Mamma og Ella frænka heimsóttu mig í viku um daginn, og það var fáránlega skemmtilegt hjá okkur. Myndirnar verður að birta í nokkrum hlutum, þær eru endalausar, en hér kemur allavega smá sýnishorn af því hvað við erum sætar og skemmtilegar konur:

Á morgnana var boðið upp á dýrindis morgunverðarhlaðborð á Slátrarastrætinu. Því fór hrakandi með hverjum deginum sem leið, það eru greinileg tímatakmörk á gestgjafahæfileikum mínum.

Freku gestirnir tóku alla bollana, svo ég varð að drekka teið mitt úr skál. Hrmph.

Það var mikil mæðgnarómantík í ferðinni, enda bölvanlegt að vera svona mömmulaus í heilt ár!

Við styrktum kaffihús borgarinnar rausnarlega í sólinni, og gestirnir mínir vöktu mikla gleði meðal karlkyns vegfarenda. Ég þorði varla orðið að sleppa þeim einum út, sakleysingjunum...
Mamma fær verðlaun fyrir að vera sérstaklega dönnuð í ferðinni (lítur út eins og fylleríismynd, en konan er bláedrú, lofa)
Ella hrundi aðeins í hvítvínið (mitt blogg, má birta hræðilegar myndir af öllum öðrum og bara fínar myndir af mér!)
Veðrið var eins og eftir pöntun (gerði leynilegan samning) svo við böðuðum okkur í sólinni milli dagskrárliða
Meiri mæðgnarómantík. Mússímússí...
Það kom svakalegt demba eitt kvöldið þegar við vorum úti að borða, og þjónninn okkar vildi ekki að fínu gestirnir mínir blotnuðu á leiðinni heim svo hann lét þær fá sitthvorn svarta ruslapokann. Ég hélt í fyrsta skipti á ævinni að ég myndi hreinlega kafna úr hlátri og deyja þegar þær voru komnar í þá, sérstaklega mamma, sem reif bara smá gat fyrir augun (reif reyndar tvö fyrir sitthvort augað, en það voru ca 30 cm á milli þeirra! Mjög forvitnileg túlkun á eigin andlitsdráttum...) og labbaði svo um allt eins og stór svört jólabjalla með dinglandi fætur. Þær vöktu mikla kátínu vegfarenda á leiðinni heim, en ég er ennþá með harðsperrur í maganum...

Nóg í bili, meira næst, verð að flytja meira draaasl!

Engin ummæli: