miðvikudagur, júlí 11, 2007

Almennt ferðablaður

Er búin að vera internetsvelt svo lengi að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Búin að rótast bæði til Spánar og Lettlands síðustu þrjár vikurnar, og skreið loksins heim í gær. Verð að stytta ferðasögurnar eitthvað til að verða ekki hérna fram á nótt...
Var ofsa gaman í Barcelona með Örnu, Moniku, Oddnýju, Bjarka og Davíð, lágum í sólinni, borðuðum góðan mat, skoðuðum okkur um í borginni og allt þetta sem maður gerir í sólarlöndum. Á eftir að fá myndirnar frá krökkunum, tók engar sjálf. Var algjörlega yndislegt allt saman, nema síðustu dagana fór mér að líða skringilega, og síðustu nóttina gafst líkaminn endanlega upp á þessu öllu saman og breytti mér í einn stóran kláðamaur með útbrot og magapest og vesen. Það gerði 12 klst ferðalagið til Lettlands mjög athyglisvert (og dvölina í Lettlandi alla svosem líka, mér batnaði ekki fyrr en næstsíðasta daginn). Í flugvélinni frá London til Riga hélt ég að ég væri farin að heyra raddir líka þegar ég heyrði skyndilega blaður á íslensku, en þá kom í ljós að afgangurinn af íslenska Lettlandshópnum var í sama flugi og ég. Mjög patent. Held ég hafi verið frekar vígaleg, svona við fyrstu sýn, þar sem ég var með sprungna æð í öðru auganu, öll bólgin og flekkótt með sjúklegan kláða og ósofin, en þau bitu á jaxlinn og tóku mér vel, skelltu mér inn á klósett og mökuðu mig alla í einhverju kláðakremi, knúsuðu mig smá og ég snarskánaði eftir það. Verí gút verí næs.
(Greinaskil af handahófi ykkur til gleði). Við vorum sótt á völlinn, gefið hrásalat að borða og svo ferjuð í bjálkakofa útí sveit þar sem við dvöldum mestallan tímann með froskabörnum, köngulóm og aragrúa af allskonar flugum sem áttu það sameiginlegt að bíta flekkótta sakleysingja með krónískan niður**** og kláða. Við Íslendingarnir vorum ekki frá neinum sérstökum samtökum (nema þá stuðningshópi fyrir vini Mr. Magnus) svo við stofnuðum á staðnum Hinn íslenska mökunarklúbb, og fengum þá auðvitað þvert á allar reglur um kynjaskiptingu í herbergi að sofa öll saman, sex manns í þremur rúmum. Mikil gleði. Þann 07.07.'07 var okkur hent út úr bjálkakofanum okkar í eina nótt því þar átti að halda rússneskt álpappírsbrúðkaup. Við fengum sænsk hertjöld (gróft aldursmat í kringum fyrri heimsstyrjöld) með engum botni og látin tjalda á ströndinni. Kvöldið á ströndinni var æðislegt, að vísu varð ég að láta mér nægja að deila allri rómantíkinni með svefnfélaga mínum, henni Rakel, en hún var algjörlega betri en enginn. Við tókum nett skokk, ég skellti í impromptu eróbikktíma í sandinum og hún tók okkur í smá boxæfingar, og svo enduðum við þetta á að skella öllum í hring og dansa and-regndans (rigning er ekki vinur þeirra sem sofa botnlausum tjöldum). Hann snarvirkaði. Einu leiðindin þetta kvöld var að í ástríðufulla regndansinum tókst einhverjum að sparka af mér tánögl, sem var ferlega óþægilegt, og frekar subbulegt. Við "sváfum" svo á jörðinni (var skaffað svefnpoka en engri dýnu...), og vorum ferlega glöð að komast aftur í bjálkakofann daginn eftir, þrátt fyrir að það væri dauður fiskur í sturtunni og köngulær á öllum klósettum.
Allt í allt ein skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í, og það er algjörlega og eingöngu því að þakka að íslenski hópurinn var frábær. Sniðuga sniðuga fólk. Ég á líka eftir að fá myndir frá öðrum frá Lettlandi, ég keypti mér nefnilega ekki myndavél fyrr en síðasta daginn. Náði að taka nokkrar myndir á síðustu metrunum, en alvöru myndir koma seinna. Voilá!

Einn líter af Magga, skipuleggjandanum okkar góða. Hann reddaði okkur frjálsum tíma í Riga og fyrir það ætti hreinlega að reisa styttu honum til heiðurs. Raffaraffa:

Við Rakel, svefn- og dansfélagar. Danshæfileikar okkar voru næstum búnir að valda umferðarslysi í Riga:
Sunneva að boxa sig upp stigann í bjálkakofanum:
Yngvi hress í miðju pakkelsi:Og síðasti, en alls ekki sísti meðlimur Hins íslenska mökunarklúbbs, Gulla:

Gulþemuð svefnfélagaást í rútu:
Yngvi frussari:

Við Rakel í góðu frussi:

Fleiri myndir (og af öðrum en bara Íslendingunum...) væntanlegar. Góðar stundir.

Engin ummæli: